Ferill 1182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2231  —  1182. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kristrúnu Frostadóttur um fjarheilbrigðisþjónustu.


     1.      Hvernig miðar áfram verkefni, sem fjallað er um í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024, um að bæta heilbrigðisþjónustu með því að innleiða fjarheilbrigðisþjónustu?
    Markmið verkefnisins er að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu með nýsköpun og nýtingu tækni og fjarskipta við framkvæmd þjónustu. Ekki er um eitt afmarkað verkefni að ræða, heldur hafa valin sérverkefni innan heilbrigðiskerfisins undir formerkjum fjarheilbrigðisþjónustu fengið fjárstuðning í gegnum verkefni byggðaáætlunar til að styðja við miðlun heilbrigðisþjónustu með fjarheilbrigðistækni. Framlögunum hefur flestum verið varið í tækjakaup eða smíði sérstaks hugbúnaðar en einnig í verkefnastjórn og að einhverju leyti í miðlun heilbrigðisþjónustu til íbúa á landsbyggðinni. Sem dæmi um ráðstöfun styrks eru kaup á fjarheilbrigðisþjónustutækjum sem notuð eru á minni stöðum heilbrigðisstofnana, samningur við Ljósið um landsbyggðarþjónustu og sérhannaðar hugbúnaðarlausnir sem auðvelda samskipti milli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga og tryggja jafnframt örugga miðlun heilbrigðisgagna.
    Samhliða verkefnum í byggðaáætlun hefur markvisst verið unnið að þróun og innleiðingu á fjarheilbrigðisþjónustu. Í miðstöð rafrænna lausna hjá embætti landlæknis er unnið að uppbyggingu og framþróun fjarheilbrigðisþjónustu til að styðja við skipulagningu og innleiðingu verkefna á sviði fjarheilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum um land allt. Miðstöð rafrænna lausna veitir upplýsingar, stuðning og miðlar þekkingu til heilbrigðisstofnana á þessu sviði.
    Um áramótin 2022/2023 var veitt gjaldtökuheimild í reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu vegna fjarheilbrigðisþjónustu/myndsímtala á göngudeildum sjúkrahúsa. Nýr rammasamningur sálfræðinga tilgreinir einnig fjarheilbrigðisþjónustu í gjaldskránni sem er nýmæli. Nýjum samningi við sérgreinalækna til fimm ára, sem gerður var í sumar, er sömuleiðis ætlað að styðja m.a. framþróun á þessu sviði, með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu sérfræðilækna.
    Ráðherra skipaði viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu í ágúst 2022 sem fékk það hlutverk að setja fram tímasetta áætlun til næstu ára um breytingar og umbætur í bráðaþjónustu um allt land. Í tillögum hópsins er lagt til að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð sem ætlað er að stórefla faglegan stuðning við alla viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, meðal annars við sjúkraflutninga og einnig við heilbrigðisstarfsfólk á starfsstöðvum heilbrigðisstofnana í dreifðari byggðum. Unnið er úr tillögum hópsins í ráðuneytinu með viðeigandi hagaðilum.
    Í ráðuneytinu er í undirbúningi frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, um fjarheilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að löggjöfin taki mið af ört vaxandi tækni- og þekkingarþróun á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og jafnframt að öryggi viðkvæmra persónuupplýsinga við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu sé tryggt. Með frumvarpinu er ætlunin að veita lagastoð fyrir fjarheilbrigðisþjónustu þannig að sjúklingar, heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir fái notið þeirrar hagkvæmni sem í henni felst á öruggan hátt. Gert er ráð fyrir nýrri lagagrein inn í lög um heilbrigðisþjónustu þar sem skilgreint verður hvað felst í fjarheilbrigðisþjónustu og mismunandi þáttum hennar. Með frumvarpinu er jafnframt ætlunin að skýra og samræma hugtakanotkun um fjarheilbrigðisþjónustu og mismunandi þætti hennar, til að stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli og eiginleikum fjarheilbrigðisþjónustu og hvernig unnt sé að nýta hana. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fyrir Alþingi næsta haust.

     2.      Stefnir ráðherra á áframhaldandi eflingu fjarheilbrigðisþjónustu að loknu tímabili verkefnis? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Fjarheilbrigðisþjónusta er í stöðugri þróun innan heilbrigðiskerfisins og efling hennar einskorðast ekki við verkefnið í byggðaáætlun 2018–2024, um að bæta heilbrigðisþjónustu með því að innleiða fjarheilbrigðisþjónustu. Lögð er áhersla á eflingu fjarheilbrigðisþjónustu í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og ýmsar lausnir tengdar fjarheilbrigðisþjónustu fléttast inn í áætlanir og stefnumótun í heilbrigðisþjónustu í nær öllum þjónustuflokkum. Í því efni er m.a. horft til þróunar fjarheilbrigðisþjónustu erlendis og reynt að fanga þær hugmyndir og lausnir sem hvað best hafa reynst í samfélögum líkum þeim sem við búum við hér á Íslandi.
    Ákveðin uppbygging innviða þarf að eiga sér stað svo hægt sé að eiga í öruggum fjarsamskiptum milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna og er gert ráð fyrir slíkri fjárfestingu í fjármálaáætlun undir málefnasviði 32.
    Ný stefnumótandi byggðaáætlun sem gildir fyrir árin 2022–2026 var samþykkt á Alþingi í júní 2022. Í þeirri áætlun er áfram stutt við innleiðingu á fjarheilbrigðisþjónustu (A5) með fjármögnun verkefna og er því fyrirséð að áfram verði hægt að leggja hinum ýmsu verkefnum lið til að þróa þjónustuna áfram.

     3.      Hefur farið fram frekari stefnumótun um fjarheilbrigðisþjónustu á tímabilinu?
    Í september 2021 birti ráðuneytið stefnu um stafræna heilbrigðisþjónustu. Með stefnunni er lagður grunnur að framtíðaráætlunum ráðuneytisins við þróun og notkun á stafrænni tækni til að bæta þjónustu með markvissri öflun, notkun og miðlun upplýsinga í þágu heilbrigðis þjóðarinnar. Í stefnunni eru sett fram þrjú meginmarkmið; að virkja einstaklinginn sem þátttakanda í eigin meðferð og heilsueflingu, auka samhæfingu milli kerfa og styðja við nýsköpun og eflingu vísinda og rannsókna. Stefnan var unnin í samráði við helstu haghafa sem koma að veitingu heilbrigðisþjónustu, skipulagi og eftirliti með henni. Stefnuna má nálgast á vef heilbrigðisráðuneytisins.
    Í lok árs 2022 skipaði ráðherra stýrihóp um stafrænar lausnir og heilbrigðistæknilausnir við veitingu heilbrigðisþjónustu. Hópnum er ætlað að vera samráðsvettvangur og ráðuneytinu til ráðgjafar við mótun og stefnu framtíðarsýnar í málaflokknum.